Umhverfisskýrsla 2022

Umhverfisskýrsla 2022 kynnir niðurstöður og árangur í umhverfismálum á árinu 2022 og er hún sú síðasta sem Garri gefur út á þessu formi. Framvegis verða birtar árlega sjálfbærniskýrslur Garra, sem munu gera grein fyrir árangri Garra í markmiðum er varða sjálfbærni.

Framtíðarsýn Garra

Garri er öflugt þjónustufyrirtæki í innflutningi á gæða matvörum, umbúðum og hreinlætislausnum fyrir veitingarekstur, hótel, fyrirtæki og stofnanir. Við höfum ástríðu fyrir okkar starfi og erum vakandi fyrir nýjungum á markaði, vöruframboði og tæknilausnum. Við leggjum áherslu á sjálfbærni, stöðugar umbætur, ábyrga stjórnarhætti og eflingu mannauðs, með gildi Garra að leiðarljósi.

Lýsing á fyrirtækinu

Starfsemi Garra fer fram að Hádegismóum 1 í Reykjavík þar sem skrifstofa, dreifingarmiðstöð og vöruhús Garra eru til húsa. Húsið var byggt á árunum 2015-2018 og er hannað með sjálfbærni og umhverfissjónarmið í huga. Í vöruhúsinu eru fullkomnir kæli- og frystiklefar þar sem nýtt er kolsýra í stað umhverfisspillandi efna eins og freons og ammoníaks.

Hjá fyrirtækinu störfuðu 75 manns á árinu 2022 miðað við heilsársstöðugildi sem er aukning um 15 frá fyrra ári. Starfsfólk Garra hefur það markmið að þjónusta viðskiptavini vel og jafnframt vera vakandi gagnvart breytingum og nýjungum á markaði og vöruframboði. Gildi Garra eru heiðarleiki, áreiðanleiki og ástríða og þau eru starfsmönnum leiðarljós í öllu þeirra starfi, við ákvörðunartöku og í samskiptum við samstarfsfélaga og viðskiptavini. Gildin endurspegla grundvallarviðhorf og hugmyndir sem liggja að baki fyrirtækjamenningu Garra.

Á árinu 2022 var mótuð metnaðarfull sjálfbærnistefna Garra með þátttöku fjögurra vinnuteyma starfsmanna, undir leiðsögn Evu Margrétar Ævarsdóttur ráðgjafa hjá LEX. Niðurstöður vinnunnar voru kynntar öllum starfsmönnum Garra í lok árs 2022 en þar kom fram bæði framtíðarstefna Garra í sjálfbærnimálum og mælanleg markmið á árinu 2023 til að ná fram þeirri stefnu. Þessar upplýsingar verða aðgengilegar á vef Garra frá og með 14. mars 2023. Umhverfisskýrsla 2022 kynnir niðurstöður og árangur í umhverfismálum á árinu 2022 og er hún sú síðasta sem Garri gefur út á þessu formi. Framvegis verða birtar árlega sjálfbærniskýrslur Garra, sem munu gera grein fyrir árangri Garra í markmiðum er varða sjálfbærni.

Skipulagsmörk (e. Organizational Boundaries)

Við gerð losunaruppgjörs Garra hefur „Operational Control“ aðferðafræðin orðið fyrir valinu en samkvæmt henni gerir fyrirtækið grein fyrir allri losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur yfirráð yfir. Fyrirtækið gerir ekki grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur ekki yfirráð yfir þrátt fyrir að það eigi hagsmuna að gæta af rekstri þeirra.

Rekstrarmörk (e. Operational Boundaries)

Innan rekstrarmarka Garra er losun vegna olíunotkunar bifreiða í eigu eða rekstri Garra í umfangi 1 og losun vegna heitavatns- og rafmagnsnotkunar í umfangi 2 fyrir starfsstöð, þ.e. skrifstofur og vöruhús Garra við Hádegismóa 1.

Úrgangur frá starfsstöð Garra er talinn fram undir umfangi 3. Ekki eru mældir aðrir þættir undir umfangi 3 að svo stöddu. Viðmiðunarár Garra er árið 2015.

Heildarlosun Garra

Heildarlosun Garra minnkaði um 12,9 tonn CO₂ ígilda eða um tæp 15% milli ára, frá árinu 2021 til ársins 2022, sjá nánar í súluriti 1.

Súlurit 1: Heildarlosun Garra 2019 – 2022

Súlurit 1: Heildarlosun Garra 2019 – 2022

Garri hefur valið þrjá lykilmælikvarða til að meta árangur sinn í umhverfismálum. Þeir eru:

  • Losunarkræfni orku
  • Losunarkræfni starfsmanna
  • Losunarkræfni rúmmetra

Losunarkræfni orku reiknast sem heildarlosun Garra deilt með þeim MWst sem Garri notar árlega í rekstri sínum. Um er að ræða raforku, heitt vatn og orku frá eldsneytisgjöfum. Sjá má að umtalsverður árangur hefur náðst í þessum mælikvarða en samdráttur í losun á milli áranna 2021 og 2022 nam um 35%.

Súlurit 2

Súlurit 2: Losunarkræfni orku (kgCO₂í/MWst) 2019 – 2022

Súlurit 3 sýnir þróun losunarkræfni á rúmmetra síðastliðin fjögur ár. Losunarkræfni rúmmetra dróst umtalsvert saman eða um u.þ.b. 57% á milli áranna 2019 til 2022 og um 14% milli áranna 2021 og 2022. Í nýju húsnæði Garra er lögð áhersla á orkusparandi lausnir varðandi rekstur húsnæðis, véla og tækja og aukinn árangur er að nást jafnt og þétt með samstilltu átaki starfsmanna.

Súlurit 3: Losunarkræfni á hvern rúmmetra kgCO₂í/m³ 2019 – 2022

Jafnframt er ánægjulegt að sjá lækkandi losunarkræfni ef miðað er við fermetra húsnæðis en þar er lækkunin einnig um 14% á milli áranna 2021 og 2022 og um 50% frá árinu 2019, sjá súlurit 4.

Súlurit 4: Losunarkræfni á hvern fermetra kgCO₂í/ m² 2017 – 2021

Einnig er verulegur árangur að nást út frá losunarkræfni miðað við fjölda starfsmanna eins og sjá má á súluriti 5.

Súlurit 5: Losunarkræfni starfsmanna (tCO₂í/stöðugildi) 2019 – 2022

Á meðan rekstrartekjur hafa aukist jafnt og þétt á undanförnum árum, hefur framleiðni starfsmanna aukist á sama tíma. Bættur tækjabúnaður, verkferlar og sjálfvirknivæðing m.a. með tilkomu netverslunar hefur skilað sér í betra flæði í pöntunarferli og afgreiðslu. Á milli áranna 2021 og 2022 lækkaði losunarkræfni starfsmanna um 40% og frá árinu 2019 nemur lækkunin um 65%.

Umfang 1. Bein losun

Bein losun Garra innifelur losun vegna þeirrar eldsneytisnotkunar sem nýtt er við rekstur bifreiða í eigu félagsins. Á súluriti 6 má sjá upplýsingar um losun vegna eldsneytisnotkunar Garra á árunum 2019 – 2022. Á tímabilinu hefur losun vegna umfangs 1 lækkað um 31%.

Súlurit 6: Losun – umfang 1 (tcO₂Í) 2019 – 2022

Bílafloti Garra er samsettur af bensín/díselbílum auk metan og rafmagnsbíla. Á undanförnum árum hefur eyðsla á km minnkað vegna bættrar tækni í bílum og endurnýjun hefur átt sér stað auk þess sem hlutfall umhverfisvænni bifreiða í bílaflota Garra hefur hækkað verulega. Rafmagns-, hybrid og metan bílar eru 65% bílaflotans og bensín- og díselbílar 35%. Það skal tekið fram að bifreiðir sem dreifa vörum Garra eru ekki hluti bílaflotans þar sem þeir eru í eigu verktaka.

Umfang 2. Óbein losun vegna hita og rafmagns

Til óbeinnar losunar af starfsemi Garra telst losun vegna notkunar á heitu vatni og rafmagni á starfsstöð fyrirtækisins. Raforkunotkun er drifin af lýsingu, rafknúnum vinnutækjum og hitastigi utandyra þar sem hita- og kælikerfi eru drifin af rafmagni. Þegar heildarlosun í umfangi 2 er skoðuð (sjá súlurit 7) má sjá að losun vegna rafmagns og hita jókst svolítið á milli áranna 2021 og 2022. Losun á árinu 2022 er þó í takt við losun á árunum 2019 og 2020. Skýringin á lægra gildi á árinu 2021 er líklegast vegna minni starfsemi það árið vegna covid faraldurs, auk þess sem árið 2022 að meðaltali kaldara en fyrri ár og þurfti því að kynda meira 2022 en árið áður.

Súlurit 7: Losun – umfang 2 (tcO₂Í) 2019 – 2022

Umfang 3. Óbein losun frá virðiskeðjunni

Garri hefur staðið skil á upplýsingum um úrgang í umfangi 3 frá árinu 2015. Eins og sést á súluriti 8 er óendurunninn úrgangur búinn að lækka allverulega á milli áranna 2021 og 2022. Stærstu skýringarnar á því eru: 1) Meiri flokkun almennt á úrgangi hjá starfsmönnum Garra og 2) Sá þjónustuaðili sem sér um sorphirðu hjá Garra sendir mun meiri úrgang út til húshitunar í norðanverðri Evrópu og nýtir þar með úrganginn áfram.

Súlurit 8: Losun – umfang 3 (tcO₂Í) 2017 – 2021

Flokkun hjá Garra á árinu 2022 á sér stað á pappír, plasti, pappa, timbri og lífrænum úrgangi. Á árinu 2023 mun bætast við flokkun á málmum, gleri og textíl.

Áritun forstjóra

Garri notar umhverfishugbúnaðinn Klappir EnviroMaster til að safna umhverfisgögnum bæði sjálfkrafa og handvirkt.

Klappir EnviroMaster safnar gögnum um eldsneyti, heitt vatn, kalt vatn, rafmagn, úrgangshirðu og endastað úrgangs fyrir skrifstofu fyrirtækisins og bíla í eigu Garra eins örugglega frá upprunastað gagna og núverandi tækni leyfir. Losun gróðurhúsalofttegunda er reiknuð í tCO2í og birt í umhverfisuppgjöri þessu.

Með Klappir EnviroMaster búnaðinum er Garra gert kleift að halda utan um umhverfismál sín með einföldum og sjálfvirkum hætti, setja sér markmið og fylgjast með árangri.

Öll gögn og tölulegar upplýsingar sem birtar eru í þessu umhverfisuppgjöri fyrir tímabilið 1.janúar til 31.desember 2022 hafa verið fengin úr kerfi Klappa EnviroMaster.

Reykjavík, 14.3.2023

Magnús R. Magnússon
Garri ehf .

Lýsing á fyrirtækinu og umfangi uppgjörs

Skipulagsmörk (e. Organizational Boundaries)

Við gerð losunaruppgjörs Garra hefur „Operational Control“ aðferðafræðin orðið fyrir valinu en samkvæmt henni gerir fyrirtæki grein fyrir allri losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur yfirráð yfir. Fyrirtækið gerir ekki grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá þeim rekstrareiningum sem það hefur ekki yfirráð yfir þrátt fyrir að það eigi hagsmuna að gæta af rekstri þeirra.

Rekstrarmörk (e. Operational Boundaries)

Innan rekstrarmarka Garra er losun vegna olíunotkunar bíla í eigu eða rekstri félagsins í umfangi 1 og heitavatns- og rafmagnsnotkun í umfangi 2 fyrir starfsstöð Garra að Hádegismóum 1, Reykjavík.
Úrgangur er talinn fram undir umfangi 3.

Viðmiðunarár Garra fyrir ofangreint er árið 2015

Skýringar

Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda (E1)

● Umfang 1 tekur saman beina losun gróðurhúsalofttegunda frá starfsemi fyrirtækis. Í tilfelli Garra afmarkast umfang 1 við losun frá ökutækjum í eigu Garra vegna eldsneytisnotkunar.

● Umfang 2 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda sem tengd er raforkunotkun og notkun á heitu vatni. Losun af þessu tagi á sér ekki stað innan marka starfsemi fyrirtækisins og telst því til óbeinnar losunar.

● Umfang 3 tekur saman óbeina losun gróðurhúsalofttegunda í virðiskeðju Garra. Sú losun, sem talin er fram í uppgjöri þessu, er losun vegna úrgangshirðu frá starfsstöð fyrirtækisins.

Greint er frá losun gróðurhúsalofttegunda í tonnum af CO₂ ígildum (tCO₂í). Losun gróðurhúsalofttegunda er mæld í tonnum svokallaðra koltvísýringsígilda (tCO₂í). Koltvísýringsígildi er mælieining sem lýsir því magni koltvísýrings sem hefur sama hnatthlýnunarmátt (e. GWP, global warming potential) og tiltekin blanda annarra gróðurhúsalofttegunda miðað við hundrað ára tímabil. Til að mynda jafngildir metan (CH₄) 25 koltvísýringsígildum og nituroxíð (N₂O) 298 koltvísýringsígildum.

  1. Nettó kolefnislosun

Nettó kolefnislosun starfsemi sýnir nettó losun fyrirtækis með teknu tilliti til aðgerða til kolefnisjöfnunar.

  1. Losunarkræfni (E2)

Tölur um losunarkræfni eru byggðar á samanlögðu; umfangi 1, umfangi 2 og umfangi 3 (úrgangslosun). Losunarkræfni reiknast sem losun gróðurhúsalofttegunda á valda rekstrarþætti og er sett fram sem tCO₂í á einingu (svo sem tCO₂í á móti heildartekjum). Mælikvarðarnir mæla og bera losun fyrirtækisins saman við stærð rekstrarins.

  1. Bein og óbein orkunotkun (E3)

Heildarorkunotkun mælir alla orku sem nýtt er af fyrirtækinu, að meðtöldu því eldsneyti sem notað er á ökutæki í eigu fyrirtækisins (umfang 1) og orku frá rafveitum og heitu vatni (umfang 2). Orkunotkunin er sett fram í kílówattstundum (kWst).

  1. Orkukræfni (E4)

Orkukræfni reiknast sem heildarorkunotkun deilt í valda rekstrarþætti og er sett fram sem kWst á einingu (svo sem kWst á starfsmann í fullu stöðugildi). Mælikvarðarnir eru notaðir til að mæla orkunýtni og bera orkunotkun fyrirtækisins saman við stærð rekstrarins.