Sjálfbærniskýrsla Garra 2023

Frá upphafi hefur Garri viljað vera fyrirmynd um ábyrga starfsemi sem tekur mið af umhverfinu og samfélaginu í heild sinni. Áhersla er á að rekstur félagsins sé til fyrirmyndar út frá alþjóðlegum og viðurkenndum viðmiðum um umhverfismál, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS). Við ætlum að leggja okkar af mörkum til að styðja við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna í sjálfbærni.

Vegferð okkar í sjálfbærni og frumkvæði til meiri árangurs á þeim vettvangi má rekja aftur til ársins 2015 þegar hafist var handa við að safna skipulega upplýsingum um úrgang og undirbúa flutning í Hádegismóa. Húsnæði Garra var byggt og hannað til að valda lágmarks umhverfisáhrifum, vélar og tæki Garra nýta sér orkusparandi lausnir sem hafa gert okkur kleift að reka mun stærra húsnæði og tækjabúnað á hlutfallslega umhverfisvænni hátt. Í vöruhúsinu eru fullkomnir kæli- og frystiklefar þar sem kolsýra er nýtt í stað umhverfisspillandi efna eins og freons og ammoníaks. Orkusparandi LED lýsing er í húsnæði Garra og snjallmælar fyrir rafmagnsnotkun. Losunarkræfni á hvern rúmmetra heldur því áfram að dragast saman sem og losunarkræfni orku og losunarkræfni starfsmanna.

Garri notar umhverfishugbúnaðinn Klappir EnviroMaster til að safna umhverfisgögnum. Hugbúnaðurinn safnar gögnum um flokkun, endurnýtingu úrgangs, notkun á eldsneyti, heitu og köldu vatni og rafmagni.

Árið 2023 var viðburðarríkt ár í rekstri Garra, við fögnuðum 50 ára afmæli og unnið var að aukinni skilvirkni í vöruhúsi. Frystir var stækkaður og nýr kælir var tekinn í notkun ásamt sjálfvirkum tínsluturni og nýjum ferlum sem hafa aukið skilvirkni í vöruhúsi og dreifingu. Starfsfólk Garra tók virkan þátt í greiningu og vali á sjálfbærniáherslum, sem eru ábyrg starfsemi, mannauður, aðfangakeðja og viðskiptavinir. Með þátttöku starfsmanna var grunnur að sjálfbærnimenningu lagður og stefna og markmið fyrir árið 2023 voru kynnt á 50 ára afmæli Garra.

Með samhentu átaki starfsmanna tókst vel til árið 2023 með flokkun og endurnýtingu úrgangs. Rétt tæp 80% úrgangs var flokkaður hjá Garra og um 98% úrgangs var endurunninn eða endurnýttur.

Bifreiðum sem ganga einungis fyrir jarðefnaeldsneyti fækkaði á milli ára og voru einungis fimm slíkir í rekstri Garra í árslok 2023 og er því hlutfall rafmagnsbíla og plugin/hybrid bíla af heildarbílaflota 76%. Við stefnum enn ótrauð á markmið um 95-100% hlutfall rafbíla og plugin/hybrid bíla árið 2026.

Verulegur árangur náðist við að minnka losun vegna umfangs 1 (bein losun vegna eldsneytisnotkunar vegna reksturs bifreiða). Losun minnkaði um 56% frá 2022, þ.e. úr 62,76 tCO₂í niður í 35,48 tCO₂í á síðasta ári. Þetta kemur fyrst og fremst til af rekstri mun færri bifreiða sem ganga eingöngu fyrir jarðefnaeldsneyti.

Losun vegna umfangs 2 jókst á milli áranna 2022 og 2023. Var 27,91 tCO₂ árið 2023 en 21,48 tCO₂í árið 2022. Miklar framkvæmdir stóðu yfir í vöruhúsinu, meðal annars veruleg stækkun frystis og bygging nýs kælis, en báðar þessar einingar þurfa aukið rafmagn til að viðhalda réttu hitastigi og tryggja loftræstingu.

Starfsánægja var mæld í tveimur árlegum könnunum á árinu og helst áfram góð. Í viðhorfskönnun VR „fyrirtæki ársins“ mældist þátturinn „ánægja og stolt“ með einkunnina 4,42 af 5 mögulegum og í annarri könnun á vegum Garra mældist voru svör við spurningunni: „Á heildina litið er ég ánægð(ur) í starfi mínu“ með einkunnina 4,3 af 5 mögulegum.

Á árinu 2023 var mannauðsstefna Garra endurskoðuð og um leið mörkuð skýr stefna í fræðslumálum. Virðing, vöxtur og vellíðan eru leiðarljós Garra þegar kemur að mannauðsmálum og það felur í sér að mikil áhersla er lögð á gæða þjálfun og símenntun. Fræðslugreining fyrir allar deildir var framkvæmd og fræðsluáætlun skilgreind fyrir árið 2023.

Töluverð vinna var lögð í að fínpússa verkfæri jafnlaunavottunar og fylgja aðferðum hennar vel eftir. Viðhaldsvottunarúttekt á vegum BSI fór fram í maí og var hún án athugasemda.

Engin alvarleg óhöpp áttu sér stað á árinu 2023 en nokkur minniháttar og næstum-því-slys. Haldin var öryggisvika haustið 2023 sem tókst vel til. Öryggisvikan hafði þann tilgang að auka þekkingu starfsmanna á öryggismálum og auka meðvitund um mögulegar hættur í umhverfinu.

Því miður náðist ekki að safna upplýsingum frá birgjum Garra um áherslur þeirra í sjálfbærni, né að framkvæma nýtt kerfisbundið áhættumat á öllum birgjum okkar meðal annars út frá sjálfbærniáherslum. Stefnt er eindregið á að ljúka þessu verkefni árið 2024.

Árleg þjónustukönnun Garra var framkvæmd á vormánuðum og erum við ánægð með heildaránægju viðskiptavina okkar og það traust sem okkur er sýnt. Við höldum áfram á þeirri vegferð og ætlum okkur að gera enn betur á árinu 2024.

Frá upphafi hefur Garri leitast eftir því að styðja við fagfólk í matreiðslu eftir bestu getu og því styður Garri við Hótel- og Matvælaskólann, Klúbb Matreiðslumeistara og Bocuse d´Or. Að auki býður Garri árlega fagfólki í matreiðslu á kynningar og námskeið til innblásturs og þróunar. Garri stendur fyrir fagkeppnunum Eftirréttur ársins og Konfektmoli ársins, og veitir jafnframt sérstök hvatningarverðlaun nema.

Garri styrkir jafnframt ýmis íþróttafélög og góðgerðasamtök ár hvert.

Framundan eru mikilvæg verkefni sem við hjá Garra ætlum að vinna að með markvissum hætti. Við ætlum okkur að leggja okkar að mörkum að draga úr hlýnun jarðar og ná árangri í sjálfbærni og höfum núþegar unnið að metnaðarfullum og skýrum markmiðum fyrir árið 2024.

Markmið Garra í sjálfbærni 2023

urgangur...@4x
Úrgangur, flokkun og endurvinnsla
  • Auka flokkun alls úrgangs verulega úr 60% í a.m.k. 70%.
  • Auka nýtingu úrgangs og endurvinnslu hans (95% úrgangs verði endurnýttur, annað hvort í hefðbundna endurvinnslu eða sem eldsneyti).
  • Minnka heildarúrgang með „Saman gegn sóun“ átakinu í vefverslun, með innleiðingu fyrningardagsetningarkerfis og samhentu átaki starfsmanna.
kolefnislosun@4x
Kolefnislosun
  • Einungis verða keyptir rafbílar og plugin/hybrid bílar þegar bílafloti er endurnýjaður.
  • Stefnt er á 95-100% hlutfall rafbíla og plugin/hybrid bíla af heildarbílaflota Garra árið 2026.
  • Kannaðar verði mótvægisaðgerðir við losun, t.d. gróðursetning trjáa, endurheimt votlendis eða þróunaraðstoð
losunarkræfni@4x
Losunarkræfni
  • Minnka losun vegna umfangs 1 (bein losun vegna eldsneytisnotkunar sem nýtt er við rekstur bifreiða í eigu félagsins) um 30% miðað við losun árið 2022.
  • Losun vegna umfangs 2 (losun vegna notkunar á heitu vatni og rafmagni) standi í stað eða minnki þrátt fyrir umfangsmiklar framkvæmdir í vöruhúsi.
mannaudur@4x
Mannauður og öryggi
  • Starfsánægja starfsmanna Garra er lykilatriði og er mæld a.m.k. tvisvar á ári af óháðum aðilum.
  • Skilgreind verður fræðslustefna og fræðsluáætlun og allir starfsmenn munu fá að lágmarki 3 klst. í fræðslu á árinu.
  • Jafnlaunavottun var staðfest af óháðum vottunaraðila í júní 2022 og er tekin út árlega. Kerfið verður þróað áfram til að nýta sem best þau verkfæri sem jafnlaunavottun felur í sér svo tryggja megi sanngjarnar og faglegar ákvarðanir tengdar launum.
  • Markmið Garra er að engin slys eigi sér stað á vinnustaðnum – né á leið til og frá vinnu. Á árinu 2023 verður áhersla á fyrirbyggjandi aðgerðir í öryggismálum, aukin fræðsla, „öryggisvika“ og efling öryggisnefndar.
  • Gerðar verða úttektir á persónuverndarferlum Garra og netöryggi allra gagna á árinu 2023. Í framhaldinu verða mótaðar viðhaldsáætlanir til að tryggja áframhaldandi netöryggi og örugga vernd á persónulegum gögnum.
  • Siðareglur Garra verða mótaðar og gefnar út á árinu 2023.
vidskiptavinir@4x
Viðskiptavinir
  • Ánægja viðskiptavina er okkur mikilvæg, því er framkvæmd árleg þjónustukönnun meðal þeirra og niðurstöðum fylgt vel eftir.
  • Ábendingar frá viðskiptavinum eru skráðar og á árinu 2023 verða innleiddir ferlar um eftirfylgni ábendinga.
  • Garri vill tryggja ábyrga sölu, þjónustu og markaðssetningu til viðskiptavina og því verða innihaldslýsingar allra vara aðgengilegar í vefverslun.
  • Áhersla er á stöðugar umbætur í vefverslun, til að tryggja áreiðanleika og auka ánægju viðskiptavina.
  • Ferlar til að tryggja gæði og innleiðingu nýrra vara, verða endurskoðaðir út frá sjálfbærni og öðrum gæðaþáttum.
  • Sérstök áhersla er á að upplýsa viðskiptavini um umhverfisvænar vörur.
adfangakedjan@4x
Aðfangakeðjan - birgjar
  • Upplýsingum verður safnað frá öllum birgjum Garra um þætti er snúa að áherslum og árangri þeirra í sjálfbærni.
  • Áhættumat út frá áherslum birgja í sjálfbærni verður framkvæmt árið 2023. Meðal þátta sem hafa áhrif á matið eru umhverfisþættir, barna og nauðungarvinna, vinnuvernd og jafnrétti starfsmanna.

Markmið 2023 - Staðan

Auka flokkun alls úrgangs úr 60% í 70%

Náðum 80% flokkun

Auka nýtingu og endurvinnslu úrgangs sem er flokkaður og óflokkaður í 95%

Minnka heildarúrgang

Endurnýjun bifreiða eru eingöngu hybrid og rafmagnsbílar. Unnið er í átt að hærra hlutfalli þeirra.

(Erum komin í 76% hlutfall)

Umfang 1

30% minni eldsneytislosun

Umfang 2

Markmið um að minnka notkun á heitu vatni og rafmagni náðist ekki.

Starfsánægja mæld og markmiði náð

Allir starfsmenn fá amk þriggja klukkustunda fræðslu á ári (95%)

Jafnlaunavottun

Viðhaldsvottun á vegum BSI án athugasemda

Núll slysa stefna

Engin meiriháttar slys

Öryggisvika og efling öryggisnefndar

Úttekt á persónuverndarferlum og netöryggi

Siðareglur gefnar út

Ekki náðist að afla upplýsinga frá birgjum um áherslur og árangur í sjálfbærni

Birgjamat

(90%)

Þjónustukönnun framkvæmd

Ábendingar skráðar og ferlar innleiddir um eftirfylgni ábendinga

Innihaldslýsingar á matvörum í vefverslun (95%)

Stöðugar umbætur í vefverslun

Ferli um innleiðingu nýrra vara endurskoðað út frá sjálfbærni og gæðamálum

Aukin áhersla á umhverfisvænar vörur

Stuðningur við Hótel og Matvælaskólann

Stuðningur við Klúbb Matreiðslumeistara og kokkalandsliðið

Stuðningur við Bocuse d'Or

Fagkeppnir: Eftirréttur ársins, Konfektmoli ársins & nemaverðlaun Garra

Námskeið fyrir fagfólk

Styrkir veittir til góðgerðasamtaka